top of page
DSC03107 copy.jpg
Davíð Már 
Gunnarsson

Forstöðumaður Fjörheima og 88 hússins

Sameinumst um viðspyrnuaðgerðir í
frístundastarfi


Það er gríðarlega mikilvægt fyrir Reykjanesbæ að öflugt, faglegt, fjölbreytt og skipulagt tómstundastarf fái að vaxa og dafna hér í bæ. Félagsmiðstöðvastarf og forvarnarstarf sveitarfélaga á Íslandi hefur á síðustu áratugum náð frábærum árangri í málefnum barna og ungmenna í samstarfi við skóla, foreldra og annað íþrótta- og æskulýðsstarf. Svo góðum árangri að önnur lönd eru farin að líta til okkar í þessum málum og vilja kynnast því sem við höfum lært. Og hvað höfum við lært?

Við höfum lært að virk þátttaka í skipulögðu tómstundastarfi er einn af lykilþáttum í að tryggja farsæld barna og ungmenna, auka vellíðan og minnka líkur á áhættuhegðun. Við höfum lært það að skapa öruggan vettvang fyrir börn og ungmenni til að takast á við krefjandi verkefni á þeirra eigin forsendum hefur ótrúlega jákvæð áhrif á vöxt og þroska og eykur lýðræðislega þátttöku þeirra.

Reiknidæmið er einfalt. Ef við sköpum umhverfi þar sem börnin okkar og ungmenni fá tækifæri til þess að sinna sínum áhugamálum, tækifæri til þess að hafa áhrif, prófa nýja hluti, vinna saman og taka ábyrgð - þá öðlast þau aukna félagsfærni, aukið sjálfstraust, betri samskiptafærni og aukna þekkingu á lýðræði. Það er mikilvægt fyrir hvert samfélag.

Það er svo mikill kraftur, sköpunargáfa og gleði sem býr í unga fólkinu okkar, sem ég hef verið svo heppinn að hafa fengið að kynnast sjálfur í starfi. En umgjörðin þarf að vera slík að allir fái tækifæri til þess að taka þátt og að allir fái stuðning og áskoranir við hæfi - og þar liggja sannarlega sóknartækifæri fyrir Reykjanesbæ. 

Við viljum stuðla að aukinni vellíðan og bættri andlegri heilsu barna og ungmenna með viðspyrnuaðgerðum í frístundastarfi. 
 

En hvað þýðir þessi setning?
 

Við viljum að Reykjanesbær vinni að heildstæðri frístundastefnu fyrir sveitarfélagið - fyrir alla íbúa og aldurshópa, en ekki síst fyrir starfið með börnum og ungmennum.

Við erum orðin rúmlega 20.000 manna samfélag. Hér er ein félagsmiðstöð sem er vissulega vel sótt og þar er mikið líf og fjör alla daga vikunnar. En samkvæmt niðurstöðum úr könnunum er mæting ungmenna í Reykjanesbæ í skipulagt tómstunda- og félagsstarf langt undir landsmeðaltali. Það er ekki vegna þess að börnin og ungmennin okkar hafa minni áhuga á tómstundum en önnur ungmenni landsins. Það er vegna þess að aðgengi þeirra að skipulögðu tómstundastarfi er því miður ekki jafn gott og annars staðar.

 

Við þurfum að geta boðið unga fólkinu okkar upp á faglegt og skipulagt félagsmiðstöðvarstarf í sínu nærumhverfi. Þetta vita ungmennin sjálf, sem hafa kallað ítrekað eftir aukinni þjónustu í sínum hverfum. Þetta er ákall sem við verðum að svara.

Sambærileg sveitarfélög sem hafa svarað þessu ákalli eru t.d. Akureyri og Hafnarfjörður - en þar eru reknar sjö félagsmiðstöðvar í báðum sveitarfélögum.

 

Hvað viljum við gera?
 

Við viljum auka félagsmiðstöðvarstarf í hverfunum, auka samvinnu milli skipulagðs tómstundastarfs og skólanna og koma á fót frístundamiðstöð í Reykjanesbæ sem samþættir ýmsa þjónustu og úrræði fyrir börn og ungmenni. Þannig viljum við tryggja jafnt aðgengi allra barna og ungmenna að öflugu tómstundastarfi í öllum hverfum bæjarfélagsins.
 

Við viljum leggja sérstaka áherslu á að ná til barna og ungmenna sem þurfa auka hvatningu og stuðning til virkni vegna félagslegrar stöðu eða skólaforðunar. Þar er ávinningur skipulagðs tómstundastarfs hvað mestur - og það gerum við best með því að mæta þeim í þeirra nærumhverfi.
 

Við viljum tryggja stöðugildi og aukinn stuðning við Ungmennahús Reykjanesbæjar (88 Húsið) - þar sem mikið brottfall ungmenna úr skipulögðu tómstunda- og félagsstarfi eftir grunnskólagöngu er staðreynd.
 

Við viljum styrkja þjónustu til þessa aldurshóps (16-25 ára) og skapa umhverfi og tækifæri fyrir ungmennin okkar til þess að framkvæma hugmyndir sínar, hafa athvarf fyrir félagslega samveru og veita ráðgjöf og stuðning til þeirra íbúa Reykjanesbæjar sem eru að taka sín fyrstu skref sem fullorðnir einstaklingar.
 

Við viljum halda áfram að styðja það öfluga starf sem unnið er af Ungmennaráði Reykjanesbæjar og sjá til þess að raddir ungmenna hafi raunveruleg áhrif á ákvarðanatöku í málefnum bæjarins - með því að svara kallinu.

Tíminn til að hlúa að unga fólkinu okkar er núna.

Sameinumst um viðspyrnuaðgerðir í frístundastarfi í Reykjanesbæ.

 

Ég heiti Davíð Már Gunnarsson, starfa núverandi sem forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Fjörheima og 88 hússins og ég vil taka virkan þátt í því að skapa framsækið og faglegt starf með unga fólkinu okkar.
 

bottom of page