top of page
DSC03771-Edit copy.jpg
Valgerður Björk
​Pálsdóttir

Doktorsnemi í stjórnmálafræði og kennari við HÍ

DSC03715-Edit copy.jpg
Helga María Finnbjörnsdóttir

Sameinumst um fjölbreytt atvinnulíf

Það er hverju samfélagi mikilvægt að atvinnulíf þess sé fjölbreytt. Hér á Suðurnesjum höfum við sannarlega fundið fyrir því með brotthvarfi hersins, falli WOW og nú síðast samdrætti í flugi vegna Covid.

Þess vegna verðum við að tryggja fjölbreyttari atvinnustarfsemi og líta til allra átta þegar við horfum til framtíðar. Sveitarfélög geta laðað að sér atvinnustarfsemi með lækkun gjalda tímabundið, framboði á byggingalóðum og tryggt skipulag og aðra innviði sem styrkja starfsemi iðandi atvinnulífs. Nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum þarf að skapa öruggt umhverfi, húsnæði og aðstöðu til rannsókna og vaxtar því hugvitið er okkar dýrmætasta auðlind. Öflugt setur með fjölbreyttri aðstöðu fyrir stóra og smáa, þar sem fyrirtæki og stofnanir geta leigt aðstöðu fyrir starfsfólk sitt sem vinnur fjarri höfuðstöðvum hefur sannað sig víða um heim.

 

Þá er mikilvægt að ríkið horfi til okkar hér á Suðurnesjum og sýni vilja til að styðja við öflugt sveitarfélag í örum vexti þar sem allt of margir finna ekki vinnu við hæfi og þurfa að sækja hana til höfuðborgarsvæðisins með tilheyrandi ferðalögum ef fjarvinna er ekki i boði. Á síðasta ári var skipaður starfshópur til að útfæra hugmyndir um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar. Nú er lag að tilvonandi Mannréttindastofnun verði staðsett í Reykjanesbæ með tilheyrandi fjármagni og til framtíðar. Þar munu skapast tækifæri fyrir íbúa Reykjanesbæjar að starfa í heimabyggð sem er bæði umhverfis- og fjölskylduvænt.

Þá eru ótal mörg tækifæri til að efla sjálfbærni og horfa til verkefna eins og matvælaræktar og garðyrkju með hvoru tveggja jarðvarma og alþjóðaflugvöll til flutninga ef svo ber undir. Veitingastaðir myndu njóta góðs af og boðið upp á mat úr heimabyggð. Sveitarfélög geta einnig stutt við starfsemi eins og framhalds- og háskóla auk símenntunarmiðstöðva og fullorðinsfræðslu með samstarfi við stofnanir bæjarins og þannig skapað tækifæri til að efla menntun og möguleika íbúa. Þetta er langt í frá tæmandi listi og það er svo ótal margt sem við getum gert ef við sameinumst um það að efla atvinnulífið í Reykjanesbæ svo allir njóti góðs af.

 

Eitt er þó skýrt og það er að Bein leið hafnar alfarið frekari hugmyndum um stóriðju eða aðra mengandi starfsemi í Reykjanesbæ.

 

Valgerður Björk Pálsdóttir,

1. sæti á lista Beinnar leiðar í Reykjanesbæ.

Helga María Finnbjörnsdóttir,

2. sæti á lista Beinnar leiðar í Reykjanesbæ.

bottom of page