Sigrún Gyða Matthíasdóttir
Leikskólastjóri
Hugleiðingar leikskólastjóra
Við erum eflaust öll sammála því að ef það er einhver málaflokkur þar sem við finnum svo sannarlega fyrir vaxtarverkjum í okkar ört stækkandi bæjarfélagi þá eru það leikskólamálin. Þar má segja „betur má ef duga skal“ og að þar eru tækifæri til úrbóta. Í kortunum eru nýir leikskólar sem taka til starfa hver á fætur öðrum frá árinu 2023 – en hvað þarf að gerast til þess að mæta auknum kröfum um að yngri börn komist sem fyrst inn í leikskólana?
Sé árgangurinn 2019 skoðaður má sjá í minnisblaði fræðslusviðs Reykjanesbæjar að hann telur 240 börn. 2020 árgangurinn telur 295 börn! Hjá mér, eins og hjá um þrjú hundruð fjölskyldum í bænum, kom barn í heiminn á árinu 2020. Ég upplifi því á eigin skinni þá áskorun sem fjölmargir íbúar bæjarins standa frammi fyrir. En að auki hef ég einnig svo gaman af því að velta við steinum; að skoða málin. Ef við hefðum verið með húsnæði til þess að taka á móti 2020 árganginum frá tólf mánaða aldri, eins og umræðan hefur snúist um að undanförnu, þá hefði það þýtt 59 auka stöður starfsfólks í skólana sem þýðir 39,3 kennara með leyfisbréf til þess að ná að fara eftir lögum þegar kemur að ráðningu í leikskóla. Í þessum tölum erum við reyndar ekki að taka tillit til stöðugilda vegna barna með sértækar stuðningsþarfir.
Að auki er mikilvægt að spyrja hversu langan tíma tekur að byggja leikskóla og hversu mikið fjármagn þarf? Hvaða vinnu þarf að vinna til að koma upp faglegu menntasamfélagi þar fyrir innan?
Leikskólinn er nefnilega svo mikið meira heldur en bara húsnæði sem hýsir mikinn fjölda barna með geðgóðum hópi fullorðinna einstaklinga. Hverjar eru þarfir tólf mánaða barns? Hverjir mæta þörfum þessa barns best? Gæti ein leið til að mæta þörfum barna á milli fæðingarorlofs og leikskólagöngu verið sú að fjölskyldur geti sótt um fjölskyldustyrk frá bænum sem annars færi í niðurgreiðslu á leikskólaplássi eða dagforeldraplássi? Þar gæti útfærslan verið sú að annað foreldrið sé lengur heima eða þá að foreldrar skiptist á; viku og viku eða mánuð og mánuð til skiptis í samstarfi við vinnuveitendur. Eða hreinlega skipt viðvera foreldra fyrir hádegi og eftir hádegi, nú eða jafnvel sú lausn að afi gæti verið með afadag á miðvikudögum og amma á þriðjudögum. Er á þennan hátt hægt að létta undir með fjölskyldum sem myndu vilja geta lengt foreldraorlofið?
Verði þessi hugmynd að veruleika halda dagforeldrar sínu mikilvæga starfi áfram í að brúa bilið yfir í leikskólann og leikskólar taka glaðir á móti börnunum við átján mánaða aldur eins og margir eru þegar farnir að geta gert. Þessi hugmynd gæti leyst vanda fjölmargra fjölskyldna þangað til leikskólar bæjarins geta tekið á móti yngri börnum og þannig mætt þörfum þeirra.
Að þessu sögðu þá er ekki hægt að ræða svona samfélagslegar hugmyndir án þess að skoða kynjavinkilinn og þá hættu sem getur skapast ef við tölum ekki um hann: Tekjulægri aðilinn í fjölskyldunni er líklegri til þess að fá þessa ábyrgð eða taka hana að sér, þar sem þeir hópar sem gjarnan eru kallaðir kvennastéttir eru metnir til mun lægri launa en „karlastéttir“. Þannig gæti svona hugmynd leitt til mikillar afturfarar í jafnréttisbaráttunni. Ein leið til að vinna gegn því er möguleikinn á að hafa þetta fjölskyldustyrk en ekki einstaklingsstyrk eins og fram kemur í hugmynd hér fyrir ofan.
Til þess að hægt sé að fara í svona vinnu þurfum við engu að síður að taka þetta erfiða samtal og skeggræða í þaula. Ég er til í það! Tökum samtalið um leiðir og möguleika og hvernig samfélag við viljum bjóða börnunum okkar upp á. Ég veit nefnilega að það val sem stendur fjölskyldum til boða varðandi þann möguleika að gefa barni lengri tíma heima er mjög takmarkað. Sem leiðir yfirleitt til þess að annað foreldrið endar tekjulaust heima. Ég vil gefa fjölskyldum sem slíkt kjósa, færi á að vera með gullmolana sína lengur í fangi.
Að lokum þá fagna ég umræðunni um þörfina á uppbyggingu leikskóla á sama tíma og ég vil undirstrika hversu mikilvægt það er að mannauðurinn sem þarf til að sinna þessu starfi sé til staðar. Reykjanesbær hefur á síðustu árum unnið að því að stórauka hlutfall fagmenntaðra í leikskólum bæjarins með því að styðja einstaklega vel við starfsfólk skóla sem sækir sér kennaramenntun. Einnig á Reykjanesbær hrós skilið fyrir að leggja metnað í að bæta starfsaðstæður í skólum bæjarins.
Ég heiti Sigrún Gyða Matthíasdóttir og er þroskaþjálfi, leikskólakennari, starfandi leikskólastýra og þriggja barna móðir. Ég hugleiði oft skólamál, er áhugamanneskja um aukin gæði í barnastarfi og brenn sérstaklega fyrir því að hlúð sé að barnafjölskyldum í Reykjanesbæ.
Sigrún Gyða Matthíasdóttir,
skipar 5. sæti hjá Beinni leið fyrir bæjarstjórnarkosningar í Reykjanesbæ.