Valgerður Björk
Pálsdóttir
Doktorsnemi í stjórnmálafræði og kennari við HÍ
Vítahringur HSS
Það er virkilega sorglegt að fylgjast með vítahring sem Heilbrigðisstofnun Suðurnesja virðist vera föst í. Vítahringurinn byrjar á fólki sem fær ekki nógu góða þjónustu á HSS – kvartar við stofnunina eða opinberlega – stofnunin bregst sjaldnast við á skilningsríkan hátt – fólk svekkt og reitt og vekur athygli á málinu opinberlega – stofnunin fær á sig lélegt orðspor sem veldur því að erfitt er að fá hæft fólk til starfa – sem veldur því að þjónustan er stundum ekki nógu góð.
Persónulega get ég skilið flestar hliðar máls, ég get vel skilið að starfsfólki HSS sárnar að lesa stöðugt brjáluð komment í fjöl- og samfélagsmiðlum og ég skil líka vel að notendur þjónustunnar tjái reiði sína opinberlega, því oft eru þetta alvarleg mál sem varða heilsu þeirra sjálfra eða fjölskyldumeðlima. Ég og börnin mín höfum að mestu fengið virkilega góða þjónustu á HSS (þó það sé stundum erfitt að komast að hjá sérfræðilæknum eins og barnalæknum) en bestu þjónustuna höfum við fengið hjá barnalækni og heimilislækni sem báðir eru heimamenn. Ég veit ekki hvort það hafi eitthvað að segja en hjá þeim fær maður hluttekningu – tilfinninguna um að þeim sé alls ekki sama og vilja gera allt til að hjálpa. Því það er oftast það sem fólk sem leitar til heilsugæslunnar vill – skilning og virka hlustun, þó svo að viðkomandi læknir geti mögulega ekkert gert í málinu.
Sú hlið máls sem ég á hvað erfiðast með að skilja eru þessi hrokafullu varnarviðbrögð stjórnenda HSS. Það hlýtur að vera hægt að bregðast við gagnrýni með virðingu, stjórnendur HSS geta ekki ætlast til þess að ósáttir íbúar sýni erfiðu ástandi hjá þeim skilning ef íbúar upplifa sjaldan skilning hjá starfsfólki og stjórnendum HSS.
Hvað er þá til ráða?
Í fyrsta lagi þarf Reykjanesbær auðvitað að vera aðlaðandi búsetukostur fyrir menntað heilbrigðisstarfsfólk. Margir íbúar kvarta yfir starfsmannaveltu, að margir læknanna séu fólk sem vinni hér í stuttan tíma og búi á höfuðborgarsvæðinu.
Annars fyndist mér sniðugt að setja málefni HSS í alvöru almenningssamráðsferli sem fyrst en Suðurnesjafólk mun þurfa bíða allavega í þrjú ár eftir nýrri áætlaðri heilsugæslu í Innri-Njarðvík. Sú heilsugæsla er þó ekki að fara leysa akút vanda HSS í Keflavík. Ég sæi fyrir mér að heilbrigðisráðuneytið stæði fyrir rökræðuvettvangi þar sem slembivalinn hópur íbúa myndi ræða þjónustu HSS og að gagnvirk fræðsla færi þar fram. Íbúar fá þá tækifæri til að rökræða sín á milli um hvað betur mætti fara og kynna sín sjónarmið til stjórnenda og starfsfólks HSS, sem og heilbrigðisráðherra (hvar er hann í þessu öllu saman?) og embættisfólks. Á móti yrðu íbúar líka að hlusta á sjónarmið starfsfólks og stjórnenda HSS. Tillögur frá rökræðuvettvangnum yrðu svo teknar alvarlega og unnið með þær í stefnumótun HSS. Svona vettvangar, ef vel er að þeim staðið, geta hjálpað til við að efla gagnkvæmt traust, sem er það sem HSS og íbúar Suðurnesja þurfa virkilega á að halda núna.
Valgerður Björk Pálsdóttir,
frambjóðandi Beinnar leiðar í Reykjanesbæ
og doktorsnemi í lýðræðisfræðum.