top of page
DSC03771-Edit copy.jpg
Valgerður Björk
​Pálsdóttir

Doktorsnemi í stjórnmálafræði og kennari við HÍ

Bein leið setur börnin í forgang

Þegar ég var tvítug flutti ég í miðbæ Reykjavíkur og sagðist sko aldrei ætla að flytja aftur til Reykjanesbæjar. Gerði mér samt fullkomlega grein fyrir því að heimabærinn minn hefði veitt mér yndislega barnæsku, þar sem ég naut þeirra forréttinda að stunda íþróttir og æfa á hljóðfæri við bestu mögulegu aðstæður. Mér leið vel í öllum skólunum mínum og var virk í félagsstarfi. En borgarlífið togaði og eftir búsetu í Reykjavík stundaði ég háskólanám í nokkrum borgum í Evrópu og Bandaríkjunum. I Þar fékk ég nýtt sjónarhorn á alls konar mál, eins og samspil lýðheilsu og skipulagsmála, samgöngumál, fjölskyldumál og misjöfn tækifæri barna til náms og íþrótta- og tómstundaiðkunar. Þetta eru allt mál sem við hjá Beinni leið leggjum áherslu á í kosningunum í vor.

Ég flutti aftur heim til Reykjanesbæjar, því römm er sú taug. Fyrst um sinn átti það bara að vera tímabundin ráðstöfun, en eins og svo oft vill verða, breyttist allt þegar ég eignaðist börn. Nú á ég tvö börn á leikskólaaldri og vil hvergi annars staðar vera. Okkar stórkostlegi leikskóli hefur verið stór ástæða þess af hverju mig langar að búa áfram í Reykjanesbæ, en líka góð hverfisstemning, útivistarsvæði í nágrenninu og góðar aðstæður til íþrótta- og tómstundaiðkunar.

Til þess að viðhalda því fjölskylduvæna samfélagi sem við búum í, þarf aðgengi foreldra að dagvistun og leikskólum að vera gott. Ég hef verið formaður fræðsluráðs undanfarin fjögur ár, þar sem stefnumótun í skólamálum fer fram. Okkar helstu áherslumál hafa verið að bæta starfsumhverfi leikskólanna sem og að fjölga leikskólaplássum með stækkun tveggja leikskóla og byggingu tveggja nýrra. En betur má ef duga skal og ég geri mér algjörlega grein fyrir því að uppbyggingin hefur ekki verið jafn hröð og við vildum, en næstu ár eru stórir árgangar að koma inn í leikskólana.

Að mínu mati er mikilvægast í þessum efnum að forgangsraða fjármunum sveitarfélagsins í þágu leikskólanna. Halda áfram að byggja, stækka við leikskóla og svo seinna meir, bæta við ungbarnadeildum þar sem það er hægt. Samhliða þessu þarf að halda áfram að bæta starfsaðstæður starfsfólks leikskólanna, því ánægja og vellíðan kennara og leiðbeinenda er forsenda faglegs starfs sem Reykjanesbær vill viðhalda í leikskólunum. Fjölskylduvæn forgangsröðun verður allavega mitt hjartans mál nái ég kjöri í kosningunum í vor.


Valgerður Björk Pálsdóttir, oddviti Beinnar leiðarar.

bottom of page